Meðferðir

Tannfyllingar

Tannfyllingar eru settar  til að lagfæra og byggja upp tennur sem hafa skaðast vegna tannskemmda eða tannslits.  

Í dag eru notaðar tannlitaðar fyllingar til að byggja upp form og lit tanna þannig að þær nái sínu náttúrulega útliti.  Notast er við sérstakt plastfyllingarefni sem er hvítt að lit og er valinn litur sem passar hverju sinni.  

Byrjað er á því að fjarlægja skemmdan eða veikan hluta tannarinnar áður en tannfyllingarefnið er sett í tönnina.  Byggja þarf plastfyllingarefnið upp í nokkrum lögum sem síðan eru hert með sérstöku bláu ljósi og því er örlítið tímafrekara að setja hvítar fyllingar í tönn miðað við silfurfyllingar sem áður voru notaðar.  Kostirnir eru hins vegar þeir að hvít fylling er að fullu hert í lok tímans öfugt við það sem gilti um silfurfyllingar.

Tannhvíttun

Eðlilegt er að tennur dökkni eða gulna því eldri sem maður verður. Tannbein tannarinnar sem er undir glerungnum er gult á litinn og þéttist með aldrinum. Tennur geta einnig dökknað ef glerungurinn hefur þynnst vegna slits eða sýrueyðingar. Einnig getur verið yfirborðslitur verið á tönninni sem stafar af reykingum, drykkjum, vanþrifum eða tannstein. 

Lýsing tanna skilar oft fallegra brosi og betra útliti, sé munnurinn heilbrigður. Nauðsynlegt er að fara í tannskoðun áður en tannhvíttun fer fram. Stundum þarf að hreinsa tennurnar áður en tannhvíttun hefst og einnig þarf að ganga úr skugga um að það séu engar tannskemmdir til staðar. Tekið er þrívíddarskann af tönnum og tannsmiður býr til glærar skinnur sem falla þétt að tönnunum. Tannhvíttunarefnið sem fylgir með er svo sett í skinnurnar og þær síðan settar yfir tennurnar. Gott er að endurtaka tannhvíttunina, í nokkra daga í senn, einu sinni á ári eða á nokkurra ára fresti.  Skinnurnar endast vel og hægt er að kaupa tannhvíttunarefni í móttöku stofunnar.

Algengasta aukaverkun tannhvíttunar er tímabundin viðkvæmni og kul í tönnum. Ef það kemur upp er best að taka smá pásu á meðferðinni og halda áfram þegar viðkvæmni minnkar. Einnig er gott að nota tannkrem fyrir viðkvæmar tennur á meðan tannhvíttuninni stendur. 
Sjá leiðbeiningar um tannhvíttun

Rótfyllingar

Áður fyrr þurfti að fjarlægja tennur sem höfðu orðið fyrir áverka eða voru sýktar vegna t.d. skemmdar. Nú er sem betur fer mögulegt að bjarga tönninni með því að meðhöndla hana með rótfyllingarmeðferð.

Inni í tönninni er taugin eða svokölluð tannkvika og getur taugin ekki lagfært sjálfa sig ef hún hefur orðið fyrir áverka er hætt við að bakteríur komi sér fyrir inn í tönninni. Í kjölfarið getur myndast graftrarkýli undir tönninni og valdið miklum óþægindum og sýkingu í kjálkabeininu.

Rótfyllingarmeðferð má skipta í þrjú stig:

  • 1. Úthreinsun

Felst í því að finna alla rótarganga sem mögulega eru í rótinni og hreinsa innan úr þeim tannkvikuna sem er í raun æðar ,taugar  og bandvefur.

  • 2. Útvíkkun

Hér eru gangar breikkaðir og óreglur innan í tönninni fjarlægðar svo mögulegt verði að fylla síðan í holrýmið.

  • 3. Fylling

Endanleg fylling sett ofan í rótina og  í rótarganga.  Það er gert til þess að koma í veg fyrir að bakteríur ná að lifa innan í tönninni.

Ósýnilegar tannréttingar-Invisalign

Tannréttingameðferð án teina! Glærir gómar sem færa tennur í betri stöðu, vernda þannig tennurnar gegn sliti og öldrunaráhrifum.

Krónur og brýr

Postulínskrónur, gullkrónur og postulínsbrýr eru föst tanngervi sem endurskapa form og lit tanna. Tönnin er skorin til, þrívíddarskann tekið af tannstautnum og tannsmiður smíðar postulínskrónu-eða brú sem tannlæknir límir svo á tannstautinn í annarri heimsókn. Mælt er með að krýna tennur þegar lítið er eftir af eigin tannvef, til að styrkja rótfylltar tennur eða til að bæta form eða útlit tanna.

Tannplantar

Tannplantar koma í staðinn fyrir tennur sem hafa tapast og þar sem engar rætur eru lengur til að byggja á. Notaðar eru títaníumskrúfur sem eru skrúfaðar í kjálkabeinið. Á implöntin eru svo festar krónur eða brýr. Tannplantameðferðin getur verið tímafrek en bíða þarf í 6-8 vikur eftir að tönn er fjarlægð þar til tannplantinn er skrúfaður í beinið. Tannplantinn þarf svo að gróa við beinið í 3 mánuði áður en hægt er að setja krónuna á. Á stofunni notum við eingöngu hágæða tannplanta sem tryggja góða endingu.

Tannhreinsun

Mikilvægt er að koma reglulega í tannhreinsun til að viðhalda heilbrigði tanna og tannholds og minnka þar með líkur á að þróa með sér tannholdssjúkdóma. Í tannhreinsun er hreinsaður tannsteinn og yfirborðsmislitun tanna, en tennur og fyllingar geta dregið í sig lit með tímanum. Það er mjög einstaklingsbundið hversu mikinn tannstein fólk fær og því er nauðsynlegt að tannlæknir ráðleggi manni um það hversu oft viðkomandi þarf að koma í tannhreinsun.

Tannlækningar barna

Við mælum með að fyrsta heimsókn barns til tannlæknis eigi sér stað um tveggja og hálfs árs aldur. Við leggjum áherslu á að börnunum líði vel þegar tannlæknastofan er heimsótt. Afslappað og vinalegt umhverfi lætur þau njóta heimsóknarinnar og koma þau til með að hlakka til næstu heimsókna eftir því sem þau eldast og þroskast. Fræðsluefni frá Tannlæknafélagi Íslands.

Skorufyllingar

Stundum eru skorur fullorðinsjaxla djúpar og þannig gerðar að óhreinindi og tannsýkla safnast auðveldlega fyrir í þeim og auka þannig hættuna á tannskemmdum þó þrifið sé vel. Því er góð forvörn, yfirleitt hjá börnum, að fylla uppí skorur tannanna til þess að auðveldara sé að þrífa yfirborð þeirra. Aðgerðin felst í að þrífa glerung tannanna og láta fljótandi plast renna ofan í skorurnar. Ekki er þörf á deyfingu þar sem enginn tannvefur er fjarlægður.

Bitskinnur

Algengt er að fólk gnísti tönnum og þá oftast i svefni. Langvarandi gnístur veldur sliti á tönnum og getur einnig verið orsök höfuð-og andlitsverkja. Við útbúum gnístursskinnur sem viðkomandi sefur með en skinnan ver tennurnar fyrir frekari sliti en einnig minnkar skinnan spennu andlitsvöðvanna. Við útbúum einnig bitskinnur fyrir íþróttafólk og kæfisvefnsgóma.

Gervitennur

Þó ekkert sé betra en eigin tennur þá geta gervitennur komið í stað eigin tanna þegar allar tennur annars eða beggja góma hafa tapast. Fólki gengur misvel að aðlagast notkun gervitanna en þá sérstaklega í neðri gómi þar sem festa þar er oft síðri en í efri góm. Hægt er að græða tannplanta í neðri gómi og koma smellum fyrir á tannplöntunum og gervitönnunum til að festa gervitennurnar betur. Ef gervitennurnar eru farnar að passa illa getur stundum verið þörf á að bæta á undirlag gervitannanna með því að fóðra þær.