Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir tannpínu

Ástæðurnar gætu t.d. verið tannskemmd, sýking eða tannáverki.

Ef þú hefur fengið tannpínu getur þú leitað upplýsinga hér á síðunni um mögulegar ástæður og meðferðarmöguleika.

Hafðu samband ef verkurinn er stöðugur og engin ráð eru til að lina verkinn. Mikilvægt er að tannlæknir greini ástæðuna fyrir tannpínunni.

Viðkvæmni fyrir hita og kulda

Tannpína: Ef viðkvæmni fyrir hita og kulda varir aðeins í örfáar sekúndur eða meðan áreitið er til staðar, bendir það yfirleitt ekki til alvarlegra vandamála.  Gæti verið lítil skemmd, laus fylling eða sár tannháls vegna þess að tannholdið hefur færst upp eftir tönninni.

Ráð: Prófa að nota tannkrem sem er sérstaklega ætlað viðkvæmum tönnum.  Bursta upp og niður með mjúkum bursta frekar en fram og til baka sem getur myndað slit á tannhálsasvæði.  Ef ástand er viðvarandi skal leita til tannlæknis.

Viðkvæmni eftir tannviðgerð

Tannpína: Lýsir sér sem viðkvæmni fyrir köldu eða heitu.  Tannaðgerð eins og t.d. tannfylling getur valdið tímabundinni bólgu í vef og taug sem er inni í tönninni.  

Ráð: Bíða í tvær til fjórar vikur.  Ef verkur heldur áfram eða versnar skaltu hafa samband.  Mögulega þarf að rótfylla tönnina til að verkur hverfi.

Verkur þegar bitið er saman

Tannpína: Skyndilegur og beittur verkur þegar bitið er í fæðu eða eitthvað sem er á milli tannanna.  Getur verið laus fylling eða sprunga í tönn.  Sömuleiðis getur taug tannarinnar verið veikluð.

Ráð: Hafðu samband til að meta ástandið.  Tannlæknirinn greinir þá ástæðu tannpínunnar og hvort um er að ræða sprungu í tönninni.  Einnig þarf að athuga hvort rótfylla þurfi tönnina.

Verkur sem varir lengur en 30 sek. eftir að kaldur eða heitur matur kemur við tennur

Tannpína: Langur og djúpur verkur sem hangir lengi inni.  Mjög líklega er um rótarbólgu að ræða vegna tannskemmdar eða vegna þess að drep er komið í taug og vef sem er inni í tönninni.

Ráð: Hafðu strax samband til að bjarga tönninni með rótfyllingu.

Stöðugur og mikill verkur, þrýstingur og bólga í tannholdi og tönn aum viðkomu

Tannpína: Stöðugur og mikill verkur ásamt bólgu og þrýstingi í tannholdi.  Tönn getur verið mjög aum viðkomu.  Líklegt er að tannkýli hafi myndast undir tönn og er sýking í beini og tannholdi sem umlykur tönnina.

Ráð: Hafðu samband og tannlæknir mun  lina verkinn.  Líklega með rótfyllingu og sýklalyfjum eða öðrum aðferðum.

Eymsli og þrýstingur í efri tönnum og kjálka

Tannpína: Gnístran tanna(bruxism) getur valdið þessu.  Sömuleiðis getur verkur vegna kinnaholubólgu komið fram í tönnum og andliti.

Ráð: Vegna gnísturs þarf ráð frá tannlækni en ef sýking er í kinnaholum þarf að ráða niðurlögum hennar með sýklalyfjum.  Ef verkur er mikill skaltu hafa samband.